Leita í fréttum mbl.is

Hljómsveitin Lexía

Hljómsveitin var stofnuð á Laugarbakka í Vestur – Húnavatnssýslu 1977. Starfaði með hléum til ársins 1993. Árið 1982 kom út plata með hljómsveitinni og voru meðlimir hennar þá eftirfarandi:

Axel Sigurgeirsson - trommur
Björgvin Guðmundsson - gítar, raddir
Guðmundur Þór Ásmundsson - hljómborð, harmonika, söngur, raddir
Marinó Björnsson - bassi, gítar, raddir
Ragnar Jörundsson - söngur, raddir, ásláttur

Lög: Marinó Björnsson
Textar: Arnór Benónýsson, Ragnar Ingi Aðalsteinsson
Útsetningar, upptaka og hljóðblöndun: Lexía, Sigurður Bjóla, Gunnar Smári, G. Hjörtur Howser og Helgi Kristjánsson
Aðstoð við hljóðfæraleik og útsetningu: Árni Björnsson bassi, Helgi Kristjánsson hljóðgervill, Þórður Árnason gítar

Hlið A
1. Verðbólguvögguvísa
2. Síðasta halið
3. Frostrósir
4. Segðu það fuglunum
5. Ríma
6. Takið eftir mér

Hlið B
1. Gulldansinn
2. Hver er sinnar gæfu smiður
3. Ágústína
4. Einmana
5. Unglingaást
6. Veita lið

Upptaka fór fram í Hljóðrita í desember 1981 og í janúar 1982
Útgefandi: Tónaútgáfan, Akureyri
Umslag: Marinó Björnsson
Ljósmyndir: Oddur Sigurðsson
Pressun: Alfa, Hafnarfirði
Prentun: Valprent, Akureyri

Nafnið Lexía.
Meðlimir sveitarinnar voru flestir starfandi við Laugarbakkaskóla á þessum árum. Guðmundur Þór var skólastjóri, Marinó lagahöfundur var kennari, einnig textahöfundurinn Arnór Benónýsson.
Ragnar Ingi starfaði sem kennari í Reykjavík og Ragnar Jörundsson var múrarameistari og vann við að múra kennsluhúsnæði skólans.
Kona Ragnars, Svanhvít Sigurðardóttir annaðist mötuneyti skólans.

Tilurð laga og texta:
Vafalaust má telja að áhrif frá umhverfi og starfi hafi átt ríkan þátt í að móta lög og texta en á þessum árum var helmingur nemenda í heimavist. Fyrir utan kennslu þurfti að sinna gæslu og félagsstörfum nemenda. Við kynntumst vel hugarheimi barna og unglinga og væntingum þeirra. Þannig að sumir textanna endurspegla viðhorf unglinga til þess veruleika sem þeir lifðu og hrærðist í.

Upptökur:
Fórum í Hljóðrita í desember 1981 og tókum upp prufuupptökur
( demó ) . Lokið var við upptökur í janúar ´82. Um þessar mundir var sr. Pálmi Matthíasson prestur á Hvammstanga. Hann varð hrifinn af framtakinu og fór með snældu ( kasettu ) til Akureyrar. Lét Pálma Stefánsson sem rak Tónaútgáfuna hlusta á. Honum leist vel á, vildi annast útgáfu og þannig fór þetta af stað. Platan seldist í 1100 eintökum og má teljast nokkuð gott þegar haft er í huga að þá var Rás 2 ekki farin í loftið. Aðeins “Gufan” og spilun fékkst aðeins í þáttum eins og “ Frívaktin (óskalög sjómanna) Lög unga fólksins og Óskalög sjúklinga”. Við kynntum plötuna á Broadway sem þá var á Álfabakka, nánar tiltekið þar sem SAM bíóið er nú.

Tónlistin:
Tónlistin er nokkurs konar þjóðlagarokk með ballöðum á milli. Einnig má þar finna blæbrigði sem minna á sveitatónlist ( kántrý ). Svo eru pönkáhrif og næstum því diskóstemming í nokkrum lögum. Á plötunni eru tvö sjómannalög. Flest lögin eru samin á gítar og nokkur á píanó.

Áhrifavaldar:
Bítlarnir hrundu að stað tónlistaráhuganum. Einnig var hlustað á Moody Blues, Eagles, Electric Light Orchestra, Creedence Clearwater, Deep Purple, Dire Straits, Bruce Springsteen, Santana, Huey Lewis, David Bowie, Toto, Eric Clapton, Cream, Led Zeppelin ofl.

Gagnrýni:
Platan fékk ágætis dóma þrátt fyrir að vera nokkuð sundurleit. Lexía spilaði á dansleikjum fyrir mjög breiðan aldurshóp þannig að tónlistin ber þess merki. Um eitt lagið sagði gagnrýnandi að það væri brim í því. (Ágústína )

Markaðssetning:
Þegar platan kom út var ákveðið að búa til slagorð til að auglýsa hana. “ Lexía kemur á óvart”. Einnig var búið til myndband sem notað var í sjónvarpsauglýsingu en það þótti nýlunda þá. Þar vorum við látnir hlaða vegg úr múrsteinum. Það var tenging gagnvart texta í laginu”Verðbólguvögguvísa” en það var vinsælasta lag plötunnar. Segir þar frá foreldri sem er að reyna að koma barni sínu í háttinn en hefur engan tíma til þess vegna þess að hann er að byggja hús.

Sérstaða:
Vekja má athygli á því að lög og textar plötunnar eru frumsamið efni. Engin tökulög eða eftirlíkingar eins og algengt var á þeim tíma hjá mörgum hljómsveitum. Einnig þótti athyglisvert hversu raddaður söngurinn var. Lexía var fyrsta vinylplatan sem gefin var út í Húnavatnssýslu og jafnvel sú síðasta ef vinylplötur verða ekki teknar í notkun aftur. Þannig að við lítum svo á að platan hafi ákveðið heimildar og menningarsögulegt gildi.

Nýir meðlimir:
Um vorið 1982 urðu breytingar á liðskipun sveitarinnar. Björgvin og Guðmundur Þór hættu en í þeirra stað komu Jón Sverrisson sem lék á gítar og söng. Einnig Jóhann Örn Arnarsson sem lék á hljómborð, harmoniku og raddaði. Þeir bjuggu þá á Blönduósi þannig að við sögðum að tekist hefði að sameina austrið og vestrið. Við æfðum til skiptis í Félagsheimilinu Ásbyrgi Laugarbakka og í Félagsheimili Blönduóss. Á milli þessara staða eru um sextíu kílómetrar þannig að töluvert þurfti að hafa fyrir þessu. Þegar hér var komið sögu var hljómsveitin orðin mjög þekkt á Norður og Vesturlandi og einnig á Vestfjörðum. Spilamennska óx jafnt og þétt þannig að í nokkur ár spiluðum við á dansleikjum tvö kvöld í viku allt árið um kring.Á þessum tíma var flóttinn af landsbyggðinni ekki hafinn þannig að ef dansleikur var auglýstur þá kom fólk til að skemmta sér. Oft var boðið upp á sætaferðir og á þéttbýlisstöðum var jafnvel hægt að spila tvö kvöld í röð, föstudags og laugardagskvöld. Ragnar Jörundsson söngvari annaðist umboðsstörfin og stóð sig með mikilli prýði. Það þurfti að auglýsa í útvarpi, prenta og skrifa á plaköt. Semja við aðila samkomuhúsanna og lögreglu, ráða dyraverði og aðila í miðasölu. Útvega skemmtanaleyfi, borga stefgjöld og skatta og annast launamál hljómsveitarinnar. Um tíma gerði hann út hljómsveitarrútu sem hann keypti. Við tókum eftir því að hljómsveitir úr Reykjavík nenntu ekki að sinna ákveðnum svæðum eins og Vestfjörðum. Þá var þar fullt af fólki og blómlegt athafnalíf. Tvö ár í röð spiluðum við á Suðureyri fimmtudagskvöld, Þingeyri föstudagskvöld og á Patreksfirði laugardagskvöldið en þar var eitt stærsta félagsheimili á landinu. Þangað komu 500 manns á laugardagskvöldi. Á heimleiðinni var komið við í Dölunum og lékum á dansleik sunnudagskvöldið í Tjarnarlundi. Einnig spiluðum við oft á Bíldudal.

Aðrar breytingar:
Mannabreytingar í hljómsveitinni Lexíu hafa verið nokkrar gegnum tíðina. Dæmi: Sveinbjörn Dýrmundsson – Gunnar Smári Helgason – Torfi Gunnþórsson – Ragnar Karl Ingason – Guðbjörg Ragnarsdóttir – Elínborg Sigurgeirsdóttir – Jóhanna Harðardóttir – Björn Traustason – Sigurvald Helgason – Skúli Einarsson.

Læt þennan pistil duga að sinni. Marinó Björnsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar ég var að hlusta á þáttinn Geymt en ekki gleymt á Rás 2 þar sem Lexía var tekin til umfjöllunar, að þá rifjaðist það upp fyrir mér að einhverntíman eftir 1997 lagði ég leið mína í hljóðfæraverslun sem hét Nótan og var fyrst til húsa í Hlíðahverfinu í Reykjavík. 

Þar sá ég vel með farið og glæsilegt Wurlitzer rafmagnspíanó til sölu á alveg þokkalegu verði. Þegar ég keypti þennan eðalgrip var mér tjáð það af sölumanni að þetta Wurlitzer rafmagnspíanó hafi áður verið í eigu hljómborðsleikara í hljómsveit sem hét LEXÍA.

Það fannst mér vera athyglisvert mál, minnugur þess þegar ég var unglingur voru dansleikir með Lexíu oft auglýstir í Ríkisútvarpinu í gamla daga. Enda er ég mikill áhugamaður um gamla tíma í tónlistarbransanum, (sjá vefsíðu mína: steinnskaptason.blog.is).

Fyrir örfáum árum seldi ég nánast allt hljómborðasafnið mitt sem var gríðarlegt og stórt að vöxtum, sem vó 1 og 1/2 tonn að þyngd, þar á meðal voru mörg gömul eðal hljómborðshljóðfæri í því, meðal annars Wurlitzerinn góði sem Lexía átti forðum daga.

Hljómsveitin Ampop keypti Wurlitzerinn af mér á sama verði og ég keypti hann á sínum tíma. Stuttu síðar urðu Ampop heimsfrægir að mér skilst og var Wurlitzer sándið ríkjandi í hljóðheim hljómsveitarinnar. Hljóðfæraverslunin Nótan hætti starfsemi fyrir þó nokkuru síðan.

Lesley boxið er það eina sem ég á úr þessu mikla safni sem ég átti, ásamt ýmsu smádóti. Annars er ég ekki beint píanóleikari, miklu frekar organisti, syntisheizer og bassaleikari á bak við tjöldin. En fyrst og fremst er ég slagverks/ásláttar og trommuleikari.

Gott mál að Lexía er risin upp og þessi vefsíða Lexíu er gott mál.

Steinn Skaptason (IP-tala skráð) 11.3.2008 kl. 02:41

2 Smámynd: Hljómsveitin LEXÍA

Sæll Steinn. Veist þú um Wurlitzer til sölu, einhversstaðar. Nú við þessa óvæntu upprisu þá vantar mig auðvita svona eðal hljóðfæri til að halda "sándinu" í bandinu. Eins ef þú vissir um fleiri hljómborð, helst í eldri kantinum.

Kv, Jóh.Örn / hljómborð 

Hljómsveitin LEXÍA, 11.3.2008 kl. 09:27

3 Smámynd: Steinn Skaptason

Sæll Jóhann Örn.

Nei, því miður.

Ég er komin alveg út úr þessum hljóðfæra-samböndum.

Kveðja, Steinn.

Steinn Skaptason, 11.3.2008 kl. 13:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Hljómsveitin LEXÍA
Hljómsveitin LEXÍA
LEXÍA
Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Tónlist

Lög og textar

Hérna setjum við upp lagalistan eins og hann var, ásamt viðbótum.

  • - 02-Síðasta halið
  • LEXÍA - Lexía - 01-Verðbólguvögguvísa
    Þetta var vinsælasta lagið með Lexíu, mest spilað í útvarpinu á sínum tíma og alltaf beðið um þetta lag á böllum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (31.10.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband